Stök frétt

Tillaga að starfsleyfi Fiskeldis Austfjarða hf. Fáskrúðsfirði

Þann 5. janúar 2017 sótti Fiskeldi Austfjarða hf. um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar til eldis sjávarlífvera í Berufirði og Fáskrúðsfirði. Umhverfisstofnun ákvað að fara með málið sem tvær umsóknir í stað einnar.

Þann 19. september 2017 lagði Fiskeldi Austfjarða hf. fram frummatsskýrslu um allt að 21.000 tonna framleiðslu á laxi í Berufirði og Fáskrúðsfirði til athugunar hjá Skipulagsstofnun, samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þann 12. mars 2018 lagði Fiskeldi Austfjarða hf. fram matsskýrslu og óskaði eftir áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Skipulagsstofnun birti álit um mat á umhverfisáhrifum vegna áforma Fiskeldi Austfjarða hf. í Berufirði og Fáskrúðsfirði þann 14. júní 2018. Umhverfisstofnun sendi inn umsögn til Skipulagsstofnunar þann 23. nóvember 2017.

Með þeirri framkvæmd sem kynnt er í matsskýrslunni er fyrirhugað að ala eingöngu lax í fjörðunum og að heildarframleiðsla fyrirtækisins í Berufirði og Fáskrúðsfirði verði 9.800 tonn í Berufirði og 11.000 tonn í Fáskrúðsfirði.

Í niðurstöðukafla álit Skipulagsstofnunar segir að fyrir liggi að fyrirhugað eldi Fiskeldis Austfjarða í Berufirði og Fáskrúðsfirði mun fylgja áhættumati Hafrannsóknastofnunar varðandi magn frjórra laxa í eldi. Áhættumatið miðar við 6.000 tonn af frjóum laxi í Berufirði og 15.000 tonnum í Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði samanlagt, en Fiskeldi Austfjarða áformar eldi á 6.000 tonnum af frjóum laxi í Berufirði og 6.000 tonnum af frjóum laxi í Fáskrúðsfirði. Að teknu tilliti til þess og áformaðra öryggisráðstafana í búnaði og rekstri telur Skipulagsstofnun að fyrirhugað eldi Fiskeldis Austfjarða muni hafa nokkuð neikvæð áhrif á stofna villtra laxa, en áhrifin eru háð óvissu. Áhrifin eru líkleg til að verða mest í laxám næst fyrirhuguðum eldissvæðum en mun einnig mögulega gæta í laxám á stærra svæði.

Fyrir liggur að fyrirtækið Laxar fiskeldi hafi leyfi til framleiðslu á 6.000 tonnum af frjóum laxi í Reyðarfirði. Því til viðbótar hefur verið auglýst frummatsskýrsla fyrirtækisins vegna 10.000 tonna aukningar á laxeldi í Reyðarfirði. Þá hafa Laxar fiskeldi kynnt tillögu að matsáætlun vegna 4.000 tonna framleiðsluaukningar í Reyðarfirði og Eskifirði á frjóum laxi. Laxar fiskeldi hafa jafnframt lagt fram tillögu að matsáætlun vegna 3.800 tonna eldis á frjóum laxi í Fáskrúðsfirði. Fyrirtækin tvö, Fiskeldi Austfjarða og Laxar fiskeldi, fyrirhuga því samanlagt 29.800 tonn eldi á frjóum laxi í Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði. Er það nærri tvöfalt það magn sem talið er ásættanlegt í áhættumati Hafrannsóknastofnunar.

Hafrannsóknarstofnun hefur gefið út burðarþolsmat fyrir Fáskrúðsfjörð sem er 15.000 tonna eldi og 20.000 tonna eldi í Reyðarfirði. Að auki hefur Hafrannsóknarstofnun í júlí 2017 gefið út áhættumat erfðablöndunar fyrir frjóan eldislax sem er 15.000 tonna sameiginlega fyrir Fáskrúðsfjörð og Reyðarfjörð. Það áhættumat kemur á sama tíma og laxeldisfyrirtæki eru að vinna að umhverfismati og  umsóknum um starfsleyfi og rekstrarleyfi.

Matvælastofnun hefur ákveðið að miða áhættumat erfðablöndunar fyrir frjóan eldislax í sömu hlutföllum milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar og burðarþolsmat Hafrannsóknarstofnunar byggist á. Þar sem áhættumatið varðar erfðablöndun og heyrir undir rekstrarleyfi, og þar sem stofnanirnar sem leyfisveitiendur verða að samræma leyfi sín eins og hægt er fylgir Umhverfisstofnun þeirri skiptingu, sem þýðir að ekki verða gefin út starfleyfi í Fáskrúðsfirði fyrir framleiðslu á frjóum eldislaxi en sem nemur 6.000 tonnum. Þá verða 9.000 tonn möguleg í Reyðarfirði. Heildarframleiðsla eldis í fjörðunum takmarkast svo að öðru leyti af burðarþolsmati, s.s. fyrir aðrar tegundir eða ófrjóan eldislax.

Ljóst er að áhættumat erfðablöndunar hefur áhrif á áform umsækjenda um starfsleyfi og rekstrarleyfi í Fáskrúðsfirði og einnig Reyðarfirði þar sem matið er sameiginlegt fyrir firðina tvo. Leyfisveitendur geta því ekki gefið út þau leyfi sem sótt hefur verið um án breytinga á umfangi. Einnig eru leyfisveitendur bundnir af fullnægjandi umsóknum um starfsleyfi og áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum.

Með nýlegum úrskurðum Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála (ÚUA) í málum nr. 3/2018, 5/2018, 4/2018 og 6/2018 voru rekstrar- og starfsleyfi Arnarlax og Arctic Sea Farm í Patreksfirði og Tálknafirði felld úr gildi. Ástæðan fyrir ógildingu var að mati nefndarinnar að ekki hafði verið fjallað um og bornir saman ólíkir valkostir í umhverfismati þessara framkvæmdar. Fiskeldi Austfjarða hf. sendi inn viðbótargreinargerð vegna samanburðar á valkostum þann 23.okótber til Umhverfisstofnunar. Umhverfisstofnun sendi erindi á Skipulagsstofnun þann 25.október varðandi greinagerðina og barst svar frá Skipulagsstofnun þann 5.nóvember.

Á þessum grundvelli auglýsir Umhverfisstofnun nú tillögu að starfsleyfi fyrir Fiskeldi Austfjarða hf. í Fáskrúðsfirði fyrir 11.000 tonna eldi á laxi, þar sem hámark fyrir frjóan eldislax verður 6.000 tonna framleiðsla á ári. Greinargerð mun fylgja starfsleyfi við útgáfu sbr. 6. gr. rg. nr. 550/2018.

Tillagan ásamt fylgigögnum er aðgengileg á vefsíðu Umhverfisstofnunar og gefst tækifæri til að koma með athugasemdir á tímabilinu 14.desember 2018 - 18.janúar 2019. Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 18.janúar 2019.

Tengd skjöl:

Tillaga að starfsleyfi

Matsskýrsla

Álit Skipulagsstofnunar

Viðbótargreinargerð um valkosti

Umsögn Skipulagsstofnunar vegna valkostaumræðu

Gæðahandbók Fiskeldis Austfjarða hf.

Umsókn um starfsleyfi